Lokasóknin framundan!

Nú er nákvæmlega mánuður síðan við Heiðbjört Ingvarsdóttir hittum þann góða mann Bjarna Gíslason, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, og ákváðum á þeim kortersfundi að efna til landssöfnunar vegna hamfaranna á Grænlandi. Þarna fæddist vinátta í verki.

Við höfðum — eðlilega — engan tíma til undirbúnings, en markmiðið var skýrt: Að senda vinum okkar og nágrönnum á Grænlandi skýr skilaboð um stuðning og kærleika á erfiðum tímum.

Jafnframt var lagt upp með að ekki yrði einni einustu krónu varið í tilkostnað. Öll vinna í sjálfboðavinnu. Enginn kostnaður við auglýsingar, síma — ,,ekki svo mikið sem frímerki,“ einsog mamma hefði sagt.

Viðbrögð almennings á Íslandi slógu strax öll fyrri met Hjálparstarfs kirkjunnar í neyðarsöfnunum. Þúsundir og aftur þúsundir einstaklinga hafa lagt inn á söfnunarreikninginn eða hringt í styrktarsímann.

Fyrirtækin okkar hafa, sum hver, sýnd rausn og myndarskap, þótt ég sakni reyndar ennþá svara frá nokkrum af okkar stærstu fyrirtækjum, sem ég vona innilega að noti nú tækifærið og sýni í senn samfélagslega ábyrgð og náungakærleika.

Og svo eru það sveitarfélögin okkar! Mikið sem ég er glaður að sjá Ísland verða fagurrautt. Nú eru aðeins örfá sveitarfélög sem eiga eftir að melda sig um borð.

Söfnunin stendur út næstu viku, kæru vinir. Við erum komin upp fyrir 40 milljónir króna.

Fram til sigurs!

Nánari upplýsingar glaðlega veittar

Talsmenn Vináttu í verki:

  • Íris Björk 845 1876
  • Karl Ottesen Faurschou: 783 1293

Hrafn Jökulsson, skipuleggjandi Vináttu í verki: 763 1797

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar: 528 4402

 

Reikningsnúmer Vináttu í verki:

  • 0334-26-056200
  • Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Áfram Grænland — lifi vináttan!

Athugasemdir