Persónulegar eigur íbúa sóttar til yfirgefnu þorpanna á Grænlandi

Enn ríkir algert óvissuástand í Uummannaq-firði á Grænlandi og mikil hætta er talin á frekari skriðuföllum og flóðbylgjum. Íbúar í Nuugaatsiaq, þar sem fjórir fórust þegar flóðalda sópaði með sér ellefu húsum, fá ekki að snúa heim næsta árið að minnsta kosti. Sama gildir um íbúa í Ilorsuit, öðru smáþorpi í grenndinni. Falli önnur skriða hefðu íbúar í Nuugaatsiaq aðeins 8 mínútur til að forða sér, en fólkið í Ilorsuit fjórar mínútur í viðbót.

Verið er að sækja persónulegar eigur íbúa Nuugaatsiaq, sem ekki fá að snúa heim í heilt ár að minnsta kosti.

Um helgina hafa liðsmenn Arktisk Kommando aðstoðað við að flytja burt sleðahunda og aðrar mikilvægar eigur íbúanna. Í fréttatilkynningu frá heimastjórn Grænlands kemur fram að þjóðbúningar, skotvopn, skartgripir og ljósmyndir sé meðal þess sem íbúarnir geta nú endurheimt, nema auðvitað þeir sem misstu allt sitt í hamförunum.

Vinátta í verki, landssöfnunin okkar, mun halda áfram næstu tvær vikur, meðan beðið er svara frá öllum sveitarfélögum landsins um þátttöku í ,,kærleikskeðju“ hringinn um landið. Hveragerði staðfesti framlag nú á föstudaginn, og búast má við að málið verði afgreitt víða um land á næstu dögum. Margir vilja nú endurgjalda Grænlendingum sem efndu umsvifalaust til landssöfnunar þegar snjóflóðið mikla féll á Súðavík 1995.

Jafnframt heitir Vinátta í verki á íslensk fyrirtæki að sýna í senn samfélagslega ábyrgð og náungakærleika. Stærstu framlög fyrirtækja til þessa eru frá Brim og Eimskip, 2 milljónir króna, Air Iceland Connect og Landsvirkjun með 1 milljón, og Húsasmiðjan, Landsbankinn og Arion banki 500 þúsund.

Vinátta í verki, sem Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn standa fyrir, vill koma á framfæri þökkum til allra sem lagt hafa lið, ekki síst þeim þúsundum einstaklinga sem hringt hafa í styrktarsímann eða lagt inn á söfnunarreikninginn. Alls enginn kostnaður fylgir landssöfuninni og fer hver króna óskipt í þágu þeirra sem verst urðu úti.

Landssöfnunin á Íslandi hefur vakið mikla athygli á Grænlandi, og ljóst að tafarlaus og kærleiksrík viðbrögð Íslendinga og Færeyinga, hafa verið grænlenskri þjóð dýrmætur stuðningur á tímum óvissu og þjóðarsorgar.

Nánari upplýsingar glaðlega veittar

Talsmenn Vináttu í verki:

  • Íris Björk 845 1876
  • Karl Ottesen Faurschou: 783 1293

Hrafn Jökulsson, skipuleggjandi Vináttu í verki: 763 1797

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar: 528 4402

 

Reikningsnúmer Vináttu í verki:

  • 0334-26-056200
  • Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Áfram Grænland — lifi vináttan!

Athugasemdir