Um hvað eru Morgunblaðið, Stundin og Eyjan sammála?

Vináttu í verki!

Að senda grönnum okkar á Grænlandi sterk skilaboð um samstöðu og stuðning. Þessir fjölmiðlar birta nú ókeypis auglýsingar, þar sem Íslendingar eru hvattir til að senda kærleikskveðju til Grænlands og taka þátt í landssöfnun vináttunnar — og þakka í leiðinni fyrir drengskap, hlýhug og rausn Grænlendinga þegar snjóflóðið féll á Flateyri 1995.

Allir stjórnmálaflokkar með fulltrúa á Alþingi hafa tekið okkar glaðlegu áskorun um framlög í söfnunina.

Skorað var á ASÍ og SA að taka nú höndum saman um þetta vináttunnar verkefni. ASÍ svaraði kallinu að bragði með 500 þús. króna framlagi og áskorun til verkalýðsfélaga að sýna Grænlendingum vináttu í verki. Í dag barst t.d. 250 þús. króna framlag frá Rafiðnaðarsambandi Íslands.

Vinátta í verki og Samband íslenskra sveitarfélaga gengu til samstarfs um að fá öll sveitarfélögin 74 til að taka þátt í söfnuninni. Þeirri áskorun hefur verið firnavel tekið, og er að myndast kærleikskeðja um landið allt. Fjölmörg sveitarfélög þegar búin að afgreiða málið snöfurlega, og von á mörgum góðum fréttum. Gerum Ísland Grænlandsrautt!

Út um allt land kviknar líka frumkvæði: Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri safnaði næstum 600 þúsund krónum á sólarhring, og höfðingsfólkið í Grímsey sendi 200 þúsund gegnum kvenfélagið og Kiwanis…

Og svo þið öll: sem nú þegar hafið, þúsundum saman, hringt í styrktarsímann eða lagt inn á söfnunarreikninginn…

Þessi söfnun snýst ekki um upphæðir, þó auðvitað viljum við sýna rausn og myndarskap.

Þessi söfnun snýst um að sýna vináttu í verki og tengja nánar saman grannþjóðirnar á öllum stigum.

Vinátta í verki er landssöfnun, þar sem allir gefa vinnu sína. Margir leggja lið. Má ég nefna núna sérstaklega meistara Andrés Magnússon sem situr í enskri sveit og annast grafíska hönnun, textagerð og hugmyndavinnu í heimsklassa — allt gratís, nema hvað. Og norður á Akureyri er snillingurinn Tómas Veigar, sem fyrir löngu er orðinn auðkýfingur á himnum. Hann snaraði upp heimasíðu fyrir Vináttu í verki, setur inn fréttir á heimasíður Kalak og Hróksins, svarar þolinmóður öllum mínum idjótísku spurningum sem varða tæknimál — og ekki tekur hann krónu fyrir alla sína snúða.

Ekki frekar en símafyrirtæki fá einseyring af þeim 2500 krónum sem innhringjandi í 907-2003 leggur til.

Bjarni framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar hefur sagt mér að við séum nú komin kringum 35 milljónir, sem er satt að segja afar ánægjulegt, Sem fyrr sagði: þetta snýst ekki um upphæðir, en við skulum stefna ótrauð að 50 milljónum. Það væru þá 3 milljónir danskra, upphæð sem munar dálítið um fyrir flóttafólkið frá Nuugaatsiaq, sem ekki mun snúa aftur næsta árið að minnsta kosti til litla þorpsins sem flóðaldan hrifsaði með sér.

Athugasemdir