Frábær fyrri hálfleikur og nýir liðsmenn: Hjörtu Íslands og Grænlands slá í takt ♥

Á fyrstu 10 dögum landssöfnunarinnar Vinátta í verki, í þágu íbúa Nuugaatsiaq á Grænlandi, hafa safnast 26 milljónir íslenskra króna, en markið er sett á að safna alls 50 milljónum. Að söfnuninni standa Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak — vinafélag Íslands og Grænlands og skákfélagið Hrókurinn. Þau tóku höndum saman, um leið og fréttist af hamförunum á Grænlandi, sem kostaði fjögur mannslíf í litlu samfélagi og gríðarlegt eignatjón fólks sem var fátækt fyrir.

Landssöfnunin var kynnt með tilkynningu til fjölmiðla og á samfélagsmiðlum mánudaginn 19. júní. Lagt var upp með að ekki yrði einni krónu af söfnunarfénu ráðstafað í auglýsingar eða annan kostnað, en treyst á góða samvinnu við fjölmiðla og þátttöku almennings á samfélagsmiðlum.

Við vildum láta Grænlendinga finna fyrir vináttu og stuðningi okkar — strax. Grænlenska þjóðin var í djúpri sorg, en tafarlaus og kærleiksrík viðbrögð Íslendinga og Færeyinga voru ljósgeisli í myrkrinu.

Seinna getum við talið upp alla þá, sem verðskulda þakkir fyrir að hafa hrundið Vináttu í verki úr vör, en eitt nafn verð ég að nefna nú þegar: Inga Dora Markussen framkvæmdastjóri Vestnorræna þingmannaráðsins, dóttir Íslands og Grænlands, og algjör lykilpersóna í öllu sem snýr að samskiptum nágrannalandanna. Um foreldra hennar gæti ég skrifað heila bók — snilldarpersónur sem eiga allan heimsins heiður og fálkaorður skilið, fyrir að hafa í áratugi unnið að samskiptum Grænlands og Íslands á ótalmörgum sviðum, opinberum sem persónulegum.

Það er gaman að vinna með fólki einsog Bjarna Gíslasyni hjá Hjálparstarfinu, Ingu Doru og sæg af öðru góðu fólki.
Við höfum ekki haldið einn einasta fund. Vinátta í verki teygir sig víða. Í enskri sveitasælu situr öðlingurinn Andrés Magnússon og hannar FB-skilaboðin frá okkur. Ekki tekur sá góði maður krónu fyrir, fremur en nokkur annar sem kemur að söfnuninni. Norður á Akureyri situr dýrðardrengurinn Tómas Veigar, albúinn að úða út fréttum eða slengja upp heimasíðum. Allt í þágu málstaðarins, að sjálfsögðu. (Sjálfur var ég svo lánsamur að geta lagt annað til hliðar, eða komið nauðsynjaverkum á mína góðu og traustu vini og félaga. Framundan er Skákhátíð í Árneshreppi, 7.-9. júlí, Grænlandsferðir og fleira skemmtilegt.)

Viðbrögð Íslendinga slógu ekki bara öll met, heldur hófst höfðinglegt kapphlaup íslenskra sveitarfélaga um að endurgjalda Grænlendingum kærleikskveðjuna, þegar þeir efndu til landssöfnunar eftir snjóflóðið ógurlega á Flateyri 1995. Reykjavík, Borgarbyggð, Árneshreppur, Grýtubakkahreppur, Mýrdalshreppur, Djúpavogshreppur þegar búin að ganga frá málinu — og margar skemmtilegar fréttir í uppsiglingu.

Ekki síður tók atvinnulífið myndarlega við sér. Ekki kom á óvart að Air Iceland Connect varð fyrst til með 1 milljón króna. Eimskip og Brim snöruðu fram 2 hvor, Landsvirkjun 1 milljón, styrktarsjóður Kiwanis 500.000 kr. o.s.frv. Ég er búinn að skrifa mörgum hjartagóðum forstjórum síðustu sólarhringa (þið megið gjarnan gauka að mér álitlegum netföngum í einkaskilaboðum) og hef til þessa aðeins fengið eitt svar sem byrjaði á ,,því miður…“

Í þessu mikilvæga máli er að myndast yndisleg þjóðarsamstaða: Leikskólabörn halda sölusýningu á listaverkum í þágu Vináttu í verki og björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri heitir á Flateyringa um allan heim að þakka Grænlendingum hlýhug og vináttu í verki.

Þessi söfnun snýst ekki um upphæðir (þó auðvitað viljum við sýna rausn og myndarskap) heldur um að staðfesta, útbreiða og efla vináttu Íslands og Grænlands: láta nágranna okkar finna að í Íslendingum eigi þeir vini.
Núnú, einsog Bragi frændi myndi segja: Nú er seinni hálfleikur að hefjast og nú verða breytingar í anda Lars og Heimis:

Nýir talsmenn Vináttu í verki eru parið Íris Ösp Heiðrúnardóttir, 23 ára frá Ísafirði, starfsmaður Air Iceland Connect, og Karl Ottesen Faurschou, 27 ára frá Qaqortoq, starfsmaður Íslenskra fjallaleiðsögumanna.

Þetta unga og myndarlega fólk er framtíð Íslands og Grænlands holdi klædd: ungt og kraftmikið hæfileikafólk með hjörtun á réttum stað og þau slá í takt! Þau munu hér eftir upplýsa fjölmiðla um nýjustu tölur og glaðlega veita allar upplýsingar um Grænland og grænlenskt samfélag.

Sjálfur ætla ég að einbeita mér að fjáröflun og öðru nauðsynlegu amstri í þágu Vináttu í verki.

Svo við höldum okkur við fótboltann:

Þetta var frábær fyrri hálfleikur hjá Íslandi. Húrra fyrir snerpu, skilning, kærleika — vináttu í verki.
Nú höldum við áfram af endurnýjuðum krafti í seinni hálfleik, með snilldardúettinn Íris og Kaali í fremstu víglínu vináttunnar!

Leggjumst öll á eitt, hjálpum Íris og Kaali að ná takmarkinu og útbreiðum VINÁTTU Í VERKI 🙂

Reikningsnúmer landssöfnunarinnar: 0334-26-056200
Kennitala 450670-0499

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

Áfram Grænland ♥

Athugasemdir